|
|
![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() |
31.03.2008
![]() Dagurinn í dag er góður dagur. Þrátt fyrir snjóslabb á götum eru hvítklædd fjöllin tignarleg og landið allt hulið einhverskonar dulúð. Dagurinn í dag er dagurinn fyrir skrökdaginn mikla.....þetta er líka síðasti kaffidagurinn hans Bjarna næstu þrjú árin......og þetta er svona síðasti dagurinn áður en vorið fer á stjá. Einhvern veginn er apríl meira vormánuður en vetrarmánuður, þrátt fyrir að páskahretin alræmdu hafi oft dunið á landanum í apríl. En lukkulega getum við nú hætt að óttast það, þar sem páskarnir voru að þessu sinni í mars. Dagurinn í dag er líka fyrsti dagurinn án Fálka. Ég get ekki sagt að það sé söknuður í þessum rituðu orðum heldur meira svona léttir yfir því að þurfa ekki að taka fleiri glímur við hann....sem oftsinnis enduðu að við fórum bæði um koll. Nokkrir stórir og miður fallegir marblettir hafa hlotist af samskiptum okkar Fálka, hann meira svona séð til þess að þeir hafi verið mín megin frekar en hans megin. En það er líka kannski þráinn í sauðfjárbóndanum, að vera ekki búinn að fá sér angurværari hrút til að gagnast metfénu á bænum, hvur veit. Fé er nefnilega ekki það sama og fé. Ég er alin upp í þeirri sérvisku að hvítar kollóttar (gullfallegar) kindur, sem eitt sinn prýddu fjárstofn Hólabúsins og voru ættaðar frá Hesti í Borgarfirði, voru albestu ærnar. Þær voru hreinhvítar, kollóttar, frjósamar, miklar mæður og mjólkurlagnar og þrátt fyrir að ég hafi ekki verið sliguð af lífreynslu né árum.....man ég vel þessar ær. Þetta voru ÆRNAR. Það lá því beinast við að upphefja þessa dýrkun á ný, þegar bústofn var keyptur að Fornhaga II í formi sauðfjár. Það þurfti 5 manns, tvo daga og ótal kílómetra til að nálgast nokkra kroppa, vestan úr Reykhólum, og nota sem “stofngripi” ræktunarbúsins. Ég fékk klárlega hvítar kollóttar, frjósamar, miklar mæður og mjólkurlagnar...það vantar ekki, svo að ég er sátt við mitt – utan eitt aðalvandamál! Á dögunum var fundur hjá sauðfjárræktarfélaginu mínu, sem ég að sjálfsögðu sat, stolt yfir háum tölum á pappírum sem voru mér flestar í hag. Þær snérust um kíló og lága fiturprósentu en síðan kom að einhverri tölu – sem var mér alls ekki í hag – það var “gerð”. Nú mátti mín sérviska og kunnátta sín lítils....þetta var eitthvað sem var greinlega slakur erfðaþáttur í metfénu áður dásamaða. Eftir þessa lesningu – skipti Fálki um lögheimili. Að vera með lærin í skónum er stundum sagt í spélegri merkingu þeirra orða um fólk sem er þéttlega vaxið niður. Hvar fæ ég hrút með lærin í skónum? Líklegast verð ég að brjóta odd af oflæti mínu og fara þess á leit við nágrannana, sem hafa náð góðum árangri í ræktun “læra í skónum” og ná mér í kynbótahrút á búið. Ef vel tekst til, og mér endist ræktunarævin, verð ég vonandi einn daginn stoltur eigandi fjárstofns. Sá mun kjaga um túnin, með lærin í skónum, skjanna hvítar kollóttar hörku mæður og fara vel í gálga. Þá hlýtur að koma sá dagur að tölurnar á blöðunum nái einhverju jafnvægi og sauðfjárræktarbúið í Fornhaga II líka. ![]() |
Vefhönnun: Anna Guðrún Grétarsdóttir |
|
Hrossaræktarbúið Fornhagi II, 601 Akureyri, Ísland - Tel. +354 4622101 |
|